- Hukyndra® (adalimumab) er fyrsta lyfið sem lyfjafyrirtækið STADA setur á markað samkvæmt samstarfssamningi við Alvotech um þróun, framleiðslu og sölu sjö líftæknihliðstæðulyfja.
- Fyrstu markaðirnir í Evrópu þar sem Hukyndra® er í boði eru Frakkland, Þýskaland, Finnland og Svíþjóð.
Alþjóðlega lyfjafyrirtækið STADA hefur hafið sölu á Hukyndra® (adalimumab) líftæknihliðstæðulyfi Alvotech, í Frakklandi, Þýskalandi, Finnlandi og Svíþjóð. Dreifing og sala hefst í öðrum Evrópulöndum á komandi mánuðum.
Adalimumab er fyrsta líftæknilyfjahliðstæðan sem STADA markaðssetur samkvæmt samningi við Alvotech, sem sér um þróun og framleiðslu, en samstarf fyrirtækjanna nær alls til sjö líftæknilyfjahliðstæða sem ætlaðar eru til meðferðar við sjálfsofnæmissjúkdómum, augnsjúkdómum og krabbameini. Fyrirtækin stefna að því að geta boðið evrópskum sjúklingum og meðferðaraðilum þessi lyf hvert af öðru á næstu mánuðum og árum. Meðal þeirra hliðstæða sem samstarfið nær til er AVT04 (ustekinumab), en Alvotech kynnti nýlega niðurstöður rannsóknar sem sýndi sömu klínísku virkni líftæknilyfjahliðstæðunnar og samanburðarlyfsins Stelara®.
Hukyndra er hliðstæða líftæknilyfsins Humira® í háum styrk og sítratlausu lyfjaformi, sem verður í boði sem 100 mg/mL adalimumab í 40 mg/0.4 mL áfylltum lyfjapennum auk 40 mg/0.4 mL og 80 mg/0.8 mL lausnar í áfylltri sprautu. Með þessu aukast valkostir sjúklinga og meðferðaraðila. Hukyndra hefur verið þróað með það í huga að draga úr hættu á óþægindum sjúklinga á stungustað, með auknum styrk, sítratlausu lyfjaformi og lyfjapenna með mjórri nál.
Um AVT02 (adalimumab)
AVT02 er einstofna mótefni og líftæknilyfjahliðstæða við Humira® (adalimumab). AVT02 hefur hlotið markaðsleyfi í Evrópu (Hukyndra®) og Kanada (Simlandi™). Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) hefur samþykkt að taka umsókn Alvotech um markaðsleyfi fyrir AVT02 til umsagnar og bíður afgreiðsla hennar niðurstöðu úttektar á aðstöðu fyrirtækisins.
Um STADA Arzneimittel AG
Höfuðstöðvar STADA Arzneimittel AG eru í Bad Vilbel í Þýskalandi. Fyrirtækið starfar á þremur meginmörkuðum, samheitalyfjum, sérlyfjum og almennum lækningavörum. STADA Arzneimittel AG markaðsetur vörur í um 120 löndum um allan heim. Á fjárhagsárinu 2021 voru sölutekjur samsteypunnar um 3.250 milljónir evra. Í lok síðasta árs störfuðu 12.520 manns hjá STADA um allan heim.
Um Alvotech
Alvotech, stofnað af Róberti Wessman stjórnarformanni fyrirtækisins, er líftæknifyrirtæki sem einbeitir sér að þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja fyrir sjúklinga um allan heim. Alvotech stefnir að því að verða leiðandi fyrirtæki á sviði líftæknihliðstæðulyfja. Til að tryggja hámarksgæði eru allir þættir í þróun og framleiðslu í höndum fyrirtækisins. Alvotech vinnur að þróun átta líftæknilyfjahliðstæða sem nýst geta sjúklingum með sjálfsofnæmis-, augn- og öndunarfærasjúkdóma, beinþynningu eða krabbamein. Alvotech hefur gert samninga um sölu, markaðssetningu og dreifingu við samstarfsaðila á öllum helstu mörkuðum, í Bandaríkjunum, Evrópu, Japan, Kína, öðrum hlutum Asíu, Rómönsku Ameríku, Afríku og Mið-Austurlöndum. Meðal samstarfsaðila Alvotech eru Teva Pharmaceuticals, dótturfélag Teva Pharmaceutical Industries Ltd. (NYSE and TASE: TEVA; markaðsaðili í Bandaríkjunum), STADA Arzneimittel AG (Evrópa), Fuji Pharma Co., Ltd (TSE: 4554; Japan), Cipla/Cipla Gulf/Cipla Med Pro (NSE: CIPLA; Ástralía, Nýja Sjáland, Afríka), JAMP Pharma Corporation (Kanada), Yangtze River Pharmaceutical (Group) Co., Ltd. (Kína), DKSH (SWX:DKSH; Taívan, Hong Kong, Kambódía, Malasía, Singapore, Indonesía, Indland, Bangladess og Pakistan), YAS Holding LLC (Miðausturlönd og Norður Afríka), Abdi Ibrahim (Tyrkland), Kamada Ltd. (NASDAQ og TASE: KMDA; Ísrael), Mega Labs, Stein, Libbs, Tuteur and Saval (Rómanska ameríka) og Lotus Pharmaceuticals Co., Ltd. (1795:TT; Taíland, Víetnam, Filippseyjar og Suður-Kórea).