- Bandaríska lyfjaeftirlitið (FDA) hefur staðfest að frestur þess til að afgreiða umsókn um leyfi til markaðssetningar AVT02 sem líftæknilyfjahliðstæðu við Humira sé til 13. apríl 2023
- FDA hefur lokið skoðun á umsókn um markaðsleyfi fyrir AVT02 sem líftæknilyfjahliðstæðu með útskiptileika við Humira í háum styrk og staðfest að framlögð gögn sýni að kröfur um útskiptileika séu uppfylltar. Veiting markaðsleyfis í Bandaríkjunum er nú háð fullnægjandi niðurstöðu komandi endurúttektar á framleiðsluaðstöðu fyrirtækisins
- Alvotech gerir ráð fyrir að FDA geri úttektina á framleiðsluaðstöðu fyrirtækisins á fyrsta fjórðungi ársins 2023
Bandaríska lyfjaeftirlitið (FDA) hefur staðfest að umsókn Alvotech um markaðsleyfi fyrir AVT02, sem líftæknilyfjahliðstæðu við Humira verði afgreidd eigi síðar en 13. apríl nk. Samþykki á umsókninni er háð fullnægjandi niðurstöðu endurúttektar á framleiðsluaðstöðu Alvotech í Reykjavík. Alvotech vinnur með FDA að því að skipuleggja úttektina á fyrsta ársfjórðungi 2023.
FDA hefur jafnframt staðfest að stofnunin geri ekki frekari athugasemdir við umsókn Alvotech um markaðsleyfi fyrir AVT02 sem hliðstæðu með útskiptileika (e. interchangeability) við Humira í háum styrk. Meginskilyrðið sem eftir er að uppfylla fyrir veitingu leyfis til markaðssetningar með útskiptileika er því einnig fullnægjandi niðurstaða úttektarinnar.
AVT02 er þegar til sölu í 17 löndum, þeirra á meðal í Kanada, Þýskalandi og Frakklandi. Markaðsleyfi hefur þegar verið veitt í 35 löndum alls. Í mars sl. tryggði Alvotech sér samþykki framleiðanda frumlyfsins fyrir því að markaðssetning AVT02 geti hafist í Bandaríkjunum 1. júlí 2023, að fengnu leyfi lyfjayfirvalda. Teva Pharmaceuticals, dótturfyrirtæki Teva Pharmaceutical Industries Ltd. (NYSE og TASE: TEVA) hefur samið við Alvotech um einkarétt til markaðssetningar og sölu AVT02 í Bandaríkjunum.