Alvotech Holdings S.A. („Alvotech“) og sérhæfða yfirtökufélagið Oaktree Acquisition Corp. II („OACB“) tilkynntu í dag að boðað sé til hluthafafundar í OACB þar sem tillaga um áætlaðan samruna félaganna verður borin upp til samþykktar. Fundurinn verður haldinn þriðjudaginn 7. júní 2022 kl. 14 að íslenskum tíma. Hluthafar geta tekið þátt í fundinum á vefnum eða í eigin persónu á skrifstofu lögmannsstofunnar Kirkland & Ellis við Lexingtontröð 601, 50. hæð, í New York. Eigendur almennra A og B hluta í OACB við lok viðskipta á viðmiðunardeginum 22. mars 2022 eiga rétt á að vera boðaðir á hluthafafundinn og fara með atkvæðisrétt.
Bandaríska verðbréfaeftirlitið („SEC“) hefur tekið við og staðfest gildistöku endanlegrar skráningarlýsingar á eyðublaði F-4 sem félögin lögðu inn til samþykktar vegna hins áætlaða samruna og töku verðbréfa til viðskipta. OACB hefur jafnframt lagt inn samrunagögn til SEC og mun byrja að senda hluthöfum gögnin fyrir hluthafafundinn um 12. maí n.k. Nánari upplýsingar um samruna félaganna og þær tillögur sem bornar verða upp til atkvæða á hluthafafundinum er að finna í skráningarlýsingunni, sem nálgast má með því að smella á eftirfarandi hlekk:
https://www.sec.gov/Archives/edgar/data/1820931/000119312522146486/d330937ddefm14a.htm.
Hvert atkvæði skiptir máli og OACB hvetur alla hluthafa til að láta rödd sína heyrast með því að greiða atkvæði rafrænt eða bréflega eins fljótt og auðið er, án tillits til eignarhluta viðkomandi. Ef tillögurnar sem bornar verða undir hluthafafundinn eru samþykktar, er gert ráð fyrir að samruna félaganna ljúki um eða upp úr 15. júní 2022, að uppfylltum öðrum skilyrðum fyrir viðskiptunum. Þegar samruna félaganna er lokið er gert ráð fyrir að hlutir í Alvotech verði teknir til viðskipta á NASDAQ verðbréfamarkaðnum í New York og FirstNorth markaðnum í Reykjavík, undir nýja auðkenninu „ALVO“. Þá munu áskriftarréttindi í félaginu verða tekin til viðskipta undir nýja auðkenninu „ALVOW“, á NASDAQ markaðnum.
Hluthafar í OACB sem þurfa á aðstoð að halda við að fylla út atkvæði sitt, við að nálgast eintök af skráningarlýsingunni eða kunna að hafa aðrar spurningar sem varða efni hluthafafundarins, geta haft samband við lögmann OACB, Morrow Sodali í síma +1 800 662 5200. Þá geta bankar og verðbréfafyrirtæki haft samband í síma +1 203 658 9400, eða með tölvupósti á netfangið oacb.info@investor.morrowsodali.com
-----
Um Alvotech S.A.
Alvotech, stofnað af Róberti Wessman, stjórnarformanni fyrirtækisins, er líftæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja fyrir sjúklinga um allan heim. Alvotech var stofnað árið 2013 og hefur það að markmiði að verða leiðandi í framleiðslu og dreifingu líftæknihliðstæðulyfja. Allir þættir í framleiðslunni eru í höndum fyrirtækisins sjálfs til að tryggja hámarksgæði. Höfuðstöðvar og hátæknisetur Alvotech, sem staðsett er í Vísindagörðum Háskóla Íslands í Vatnsmýri, eru búin fullkomnustu tækjum og búnaði til þróunar og framleiðslu líftæknilyfja.
Nánari upplýsingar: www.alvotech.com.
Um Oaktree Acquisition Corp. II
Oaktree Acquisition Corp. var stofnað til að vinna með framsæknum nýsköpunarfyrirtækjum í hröðum vexti og auðvelda þeim inngöngu á hlutabréfamarkað. Með því að nýta þekkingu og reynslu Oaktree, sem var með 164 milljarða Bandaríkjadala í stýringu í lok fyrsta ársfjórðungs 2022, getur Oaktree Acquisition Corp. veitt úrvals ráðgjöf og stuðning til þeirra fyrirtækja sem það vinnur með, byggt á markmiði um langtímasamstarf og verðmætasköpun.
Nánari upplýsingar: www.oaktreeaquisitioncorp.com