- Hukyndra® (adalimumab) kemur nú á markað í Belgíu, Búlgaríu, Lettlandi, Króatíu, Rúmeníu, Slóveníu og Tékklandi en við það eykst aðgengi sjúklinga að adalimumab í háum styrk í Evrópu
- Áður var markaðssetning á Hukyndra hafin í Austurríki, Eistlandi, Finnlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Litáen, Slóvakíu, Svíþjóð og Sviss
- Adalimumab er fyrsta lyfið sem markaðssett er af Alvotech og STADA samkvæmt samstarfssamningi sem kynntur var í nóvember 2019 og nær til líftæknilyfjahliðstæða við sjálfsofnæmissjúkdómum, augnsjúkdómum og krabbameini
Alvotech (NASDAQ: ALVO) og STADA hafa aukið aðgengi sjúklinga að hágæða líftæknilyfjum í Evrópu með markaðssetningu og sölu á Hukyndra (adalimumab) lyfinu í fleiri Evrópulöndum.
Alvotech framleiðir lyfið í fullkominni lyfjaverksmiðju fyrirtækins í Reykjavík og er það í boði í áfylltri sprautu og áfylltum lyfjapenna. Í kjölfar markaðssetningar og sölu lyfsins á fyrstu Evrópumörkuðunum í júní sl. hefur STADA nú einnig hafið sölu á Hukyndra í gegnum dótturfélög sín í Belgíu, Búlgaríu, Lettlandi, Króatíu, Rúmeníu, Slóveníu og Tékklandi. STADA styður við markaðssetningu Hukyndra í hverju landi fyrir sig með útgáfu sérsniðins fræðsluefnis og þjónustu við sjúklinga sem nýta sér lyfið.
„Það er mikil þörf meðal sjúklinga um alla Evrópu fyrir líftæknilyf gegn sjálfsofnæmissjúkdómum sem ekki hefur verið hægt að mæta, þar á meðal fyrir adalimumab,“ sagði Bryan Kim, stjórnandi sérlyfjadeildar STADA. „Með markaðssetningu Hukyndra í fleiri Evrópulöndum, sýnum við í verki þá stefnu okkar að auka beri aðgengi sjúklinga að þessum mikilvægu meðferðarúrræðum. Við hlökkum til að vinna með Alvotech að því að gera sjúklingum og meðferðaraðilum kleift að nálgast hágæða líftæknilyfjahliðstæður.“
Anil Okay, viðskiptastjóri Alvotech bætti við: „Við erum afar ánægð með viðtökur Hukyndra á Evrópumarkaði og teljum að lyfjapenni okkar sem hannaður var með þægindi sjúklinga í huga sé ein ástæða þessarar velgengni. Samstarfið við STADA gerir okkur kleift að auka enn aðgengi sjúklinga í Evrópu að hagstæðum líftæknilyfjum og er það sameiginlegt markmið fyrirtækjanna.“
Alvotech og STADA tilkynntu um samstarfssamning sinn í nóvember 2019 og náði hann yfir fyrirhugaðar líftæknilyfjahliðstæður við sjálfsofnæmissjúkdómum, augnsjúkdómum og krabbameini. Alvotech sér um alla þróun og framleiðslu en STADA markaðssetningu og sölu.
STADA fékk markaðsleyfi frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fyrir Hukyndra (adalimumab) í nóvember 2021 og nær það til 27 aðildarríkja ESB, auk Íslands, Liechtenstein og Noregs. Í kjölfarið var markaðsleyfi einnig veitt í Sviss og Bretlandi.
Um Hukyndra (adalimumab)
AVT02 er einstofna mótefni og líftæknilyfjahliðstæða við Humira® (adalimumab), sem binst sértækt við tumor necrosis factor. Hukyndra hefur hlotið markaðsleyfi í Evrópusambandinu, Noregi, Lichtenstein, á Íslandi, í Bretlandi, Sviss. Sama líftæknilyfjahliðstæða er með markaðsleyfi í Kanada (undir heitinu Simlandi) og í Ástralíu (undir heitunum Ciptunec og Ardalicip). Umsóknir um markaðsleyfi eru til umfjöllunar í mörgum löndum, þar á meðal í Bandaríkjunum.