Skip Navigation

Alvotech og Advanz Pharma auka samstarfið með fyrirhugaðri markaðssetningu fimm líftæknilyfjahliðstæða í Evrópu

Business
24 May 2023
  • Advanz Pharma öðlast með samningnum einkarétt til markaðssetningar í Evrópu á fimm fyrirhuguðum líftæknilyfjahliðstæðum Alvotech
  • Samkomulagið nær til fyrirhugaðra hliðstæða við Simponi (golimumab) og Entyvio (vedolizumab), auk þriggja ónefndra líftæknilyfjahliðstæða Alvotech sem eru á fyrri stigum þróunar

Alvotech (NASDAQ: ALVO) og Advanz Pharma, alþjóðlegt lyfjafyrirtæki með höfuðstöðvar í Bretlandi, sem markaðssetur lyfseðilsskyld lyf, stungu- og innrennslislyf og lyf við sjaldgæfum sjúkdómum, tilkynntu í dag að félögin hafi undirritað nýjan samning um framleiðslu og sölu fimm fyrirhugaðra líftæknilyfjahliðstæða í Evrópu. Alvotech mun sjá um þróun og framleiðslu, en Advanz Pharma sér um skráningu, markaðssetningu og sölu í Evrópu.

Það er ánægjulegt að auka enn frekar samstarfið við Advanz Pharma. Samstarf félaganna byggir á sameiginlegri sýn fyrirtækjanna á nauðsyn þess að auka aðgengi sjúklinga að hagstæðari líftæknilyfjum.

Róbert Wessman

Stjórnarformaður og forstjóri Alvotech

Með þessu samstarfi getur Advanz Pharma orðið eitt af leiðandi fyrirtækjum á sviði líftæknilyfjahliðstæða í Evrópu. Þetta er einnig mikilvægt skref í þeirri áætlun Advanz að verða helsti samstarfsaðili í Evrópu til dreifingar og sölu lyfseðilsskyldra lyfja, stungu- og innrennslislyfja og lyfja við sjaldgæfum sjúkdómum.

Steffen Wagner

Forstjóri Advanz Pharma

Við hlökkum til að treysta enn frekar sambandið við Advanz, eftir að við gengum fyrst til samstarfs í byrjun þessa árs. Það verður spennandi að vinna saman að því að koma þessum mikilvægu lyfjum á markað í Evrópu.

Anil Okay

Framkvæmdastjóri viðskiptamála hjá Alvotech

Samkomulagið við Alvotech á eftir að auka framboð Advanz af lyfseðilsskyldum lyfjum og auka þar með innri vöxt tekna hjá Advanz í framtíðinni.

Susanna El-Armale

Framkvæmdastjóri viðskiptaþróunarsviðs Advanz Pharma

Samningurinn tekur til fyrirhugaðrar líftæknilyfjahliðstæða við Simponi (golimumab) og Entyvio (vedolizumab), auk þriggja ónefndra fyrirhugaðra líftæknilyfjahliðstæða sem eru á fyrri stigum þróunar. Samkvæmt upplýsingaveitunni IQVIA er samanlögð sala þessara fimm lyfja um 570 milljarðar króna (4 milljarðar dollara) á ári á þeim mörkuðum sem samningurinn nær til.

Í febrúar sl. tilkynntu Alvotech og Advanz Pharma að félögin hefðu gert samning um markaðssetningu AVT23, fyrirhugaðrar líftæknilyfjahliðstæðu við Xolair (omalizumab). Samningurinn nær yfir Evrópska efnahagssvæðið, Bretland, Sviss, Kanada, Ástralíu og Nýja Sjáland.