- AVT06 er þriðja líftæknilyfjahliðstæða Alvotech sem tekin er til klínískrar rannsóknar
- Gert er ráð fyrir að um 444 sjúklingar taki þátt í rannsókninni
- Eylea® (aflibercept) er lyf við augnsjúkdómum, en tekjur af sölu þess voru um 130 milljarðar króna á síðasta ári
Alvotech hefur hafið klíníska rannsókn á AVT06 (aflibercept), fyrirhugaðri líftæknilyfjahliðstæðu við Eylea®. Markmið rannsóknarinnar er að bera saman klíníska virkni, öryggi og ónæmingarverkun AVT06 og Eylea í sjúklingum með aldurstengda vota augnbotnahrörnun (AMD).
ALVOEYE er fjölsetra, tvíblinduð, slembiröðuð rannsókn til að bera saman klíníska virkni viðmiðunarlyfsins og AVT06. Gert er ráð fyrir að í rannsókninni taki um það bil 444 einstaklingar þátt á heimsvísu. Meginendapunktur er breyting á leiðréttri sjónskerpu frá grunnmælingu fram í 8. viku.
Eylea (aflibercept) er notað til meðferðar við augnsjúkdómum sem geta leitt til sjóntaps eða blindu, svo sem votri augnbotnahrörnun, sjóndepilsbjúgi og sjónukvilla af völdum sykursýki. Á síðasta ári námu tekjur af sölu Eylea um 130 milljörðum króna (10 milljörðum Bandaríkjadala) samkvæmt gögnum frá EVALUATE Pharma.
Alvotech vinnur að þróun átta líftæknilyfjahliðstæða við sjálfsofnæmis-, augn- og öndunarfærasjúkdómum, beinþynningu eða krabbameini. AVT02 (adalimumab), líftæknilyfjahliðstæða við Humira® hefur þegar verið samþykkt og er komin á markað í Kanada og Evrópu, en gert er ráð fyrir að markaðssetning geti hafist í Bandaríkjunum 1. júlí á næsta ári að fengnu samþykki lyfjayfirvalda. Alvotech hefur nýlega kynnt jákvæðar niðurstöður úr klínískri rannsókn á sjúklingum og rannsókn á lyfjahvörfum fyrir AVT04, líftæknilyfjahliðstæðu við Stelara®.
Um AVT06 (aflibercept)
AVT06 er raðbrigða samrunaprótein og fyrirhuguð líftæknilyfjahliðstæða við Eylea® (aflibercept). Aflibercept binst æðaþelsvaxtarþáttum (VEGF, Vascular Endothelial Growth Factors) og getur þannig hamlað bindingu og virkjun VEGF viðtaka, nýæðamyndun og æðagegndræpi. AVT06 er lyf í þróun og hefur ekki verið samþykkt til notkunar á neinu markaðssvæði.
Um AVT04 (ustekinumab)
AVT04 er einstofna mótefni og fyrirhuguð líftæknilyfjahliðstæða við Stelara® (ustekinumab). Ustekinumab binst tveimur frumuboðefnum í ónæmiskerfinu, IL-12 og IL-23. Þannig hefur það klíníska verkun á psoriasis, psoriasis liðagigt, Crohns sjúkdóminn og sáraristilbólgu með því að trufla leiðir frumuboðefna sem eru meginþættir í meinafræði þessara sjúkdóma. AVT04 er lyf í þróun og hefur ekki verið samþykkt til notkunar á neinu markaðssvæði.
Um AVT02 (adalimumab)
AVT02 er einstofna mótefni og líftæknilyfjahliðstæða við Humira® (adalimumab) sem ætlað er til meðferðar við sjúkdómum eins og liðagigt, psoriasis, sáraristilbólgu og Chrons. AVT02 hefur hlotið markaðsleyfi í Evrópu (Hukyndra®) og Kanada (Simlandi™). Matvæla og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) hefur samþykkt að taka umsókn Alvotech um markaðsleyfi fyrir AVT02 til umsagnar og bíður afgreiðsla hennar niðurstöðu úttektar á aðstöðu fyrirtækisins.