Skip Navigation

Alvotech hefur klíníska rannsókn á AVT06, fyrirhugaðri líftæknilyfjahliðstæðu við Eylea®

Business
07 July 2022

Alvotech hefur klíníska rannsókn á AVT06

  • AVT06 er þriðja líftæknilyfjahliðstæða Alvotech sem tekin er til klínískrar rannsóknar
  • Gert er ráð fyrir að um 444 sjúklingar taki þátt í rannsókninni
  • Eylea® (aflibercept) er lyf við augnsjúkdómum, en tekjur af sölu þess voru um 130 milljarðar króna á síðasta ári

Alvotech hefur hafið klíníska rannsókn á AVT06 (aflibercept), fyrirhugaðri líftæknilyfjahliðstæðu við Eylea®. Markmið rannsóknarinnar er að bera saman klíníska virkni, öryggi og ónæmingarverkun AVT06 og Eylea í sjúklingum með aldurstengda vota augnbotnahrörnun (AMD).

ALVOEYE er fjölsetra, tvíblinduð, slembiröðuð rannsókn til að bera saman klíníska virkni viðmiðunarlyfsins og AVT06. Gert er ráð fyrir að í rannsókninni taki um það bil 444 einstaklingar þátt á heimsvísu. Meginendapunktur er breyting á leiðréttri sjónskerpu frá grunnmælingu fram í 8. viku.

Eylea (aflibercept) er notað til meðferðar við augnsjúkdómum sem geta leitt til sjóntaps eða blindu, svo sem votri augnbotnahrörnun, sjóndepilsbjúgi og sjónukvilla af völdum sykursýki. Á síðasta ári námu tekjur af sölu Eylea um 130 milljörðum króna (10 milljörðum Bandaríkjadala) samkvæmt gögnum frá EVALUATE Pharma.

Við erum afar ánægð með framgang lyfjaverkefna okkar, sem sýnir hvernig fullkomin aðstaða til þróunar og framleiðslu gerir okkur kleift að hrinda í framkvæmd metnaðarfullum áætlunum á sviði líftæknihliðstæðulyfja.

Róbert Wessman

Stofnandi og stjórnarformaður

Upphaf klínískra rannsókna er mikilvægt skref í þróun AVT06 og sýnir árangur Alvotech í þróun líftæknilyfjahliðstæða við mörgum tegundum sjúkdóma, sem getur stuðlað að bættum hag fólks um allan heim.

Joseph McClellan

Rannsóknarstjóri

Alvotech vinnur að þróun átta líftæknilyfjahliðstæða við sjálfsofnæmis-, augn- og öndunarfærasjúkdómum, beinþynningu eða krabbameini. AVT02 (adalimumab), líftæknilyfjahliðstæða við Humira® hefur þegar verið samþykkt og er komin á markað í Kanada og Evrópu, en gert er ráð fyrir að markaðssetning geti hafist í Bandaríkjunum 1. júlí á næsta ári að fengnu samþykki lyfjayfirvalda. Alvotech hefur nýlega kynnt jákvæðar niðurstöður úr klínískri rannsókn á sjúklingum og rannsókn á lyfjahvörfum fyrir AVT04, líftæknilyfjahliðstæðu við Stelara®.

Um AVT06 (aflibercept)

AVT06 er raðbrigða samrunaprótein og fyrirhuguð líftæknilyfjahliðstæða við Eylea® (aflibercept). Aflibercept binst æðaþelsvaxtarþáttum (VEGF, Vascular Endothelial Growth Factors) og getur þannig hamlað bindingu og virkjun VEGF viðtaka, nýæðamyndun og æðagegndræpi. AVT06 er lyf í þróun og hefur ekki verið samþykkt til notkunar á neinu markaðssvæði.

Um AVT04 (ustekinumab)

AVT04 er einstofna mótefni og fyrirhuguð líftæknilyfjahliðstæða við Stelara® (ustekinumab). Ustekinumab binst tveimur frumuboðefnum í ónæmiskerfinu, IL-12 og IL-23. Þannig hefur það klíníska verkun á psoriasis, psoriasis liðagigt, Crohns sjúkdóminn og sáraristilbólgu með því að trufla leiðir frumuboðefna sem eru meginþættir í meinafræði þessara sjúkdóma. AVT04 er lyf í þróun og hefur ekki verið samþykkt til notkunar á neinu markaðssvæði.

Um AVT02 (adalimumab)

AVT02 er einstofna mótefni og líftæknilyfjahliðstæða við Humira® (adalimumab) sem ætlað er til meðferðar við sjúkdómum eins og liðagigt, psoriasis, sáraristilbólgu og Chrons. AVT02 hefur hlotið markaðsleyfi í Evrópu (Hukyndra®) og Kanada (Simlandi™). Matvæla og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) hefur samþykkt að taka umsókn Alvotech um markaðsleyfi fyrir AVT02 til umsagnar og bíður afgreiðsla hennar niðurstöðu úttektar á aðstöðu fyrirtækisins.