Alvotech (NASDAQ: ALVO) tilkynnti í dag að félagið hafi gert samning um endurfjármögnun skulda við GoldenTree Asset Management, bandarískt eignastýringarfyrirtæki, sem fer fyrir hópi alþjóðlegra stofnanafjárfesta. Lánafyrirgreiðslan gerir Alvotech kleift að draga úr fjármagnskostnaði, endurfjármagna lán sem eru með lokagjalddaga á næsta ári og styrkja lausafjárstöðu sína.
Lánveitendur eru alþjóðlegir stofnanafjárfestar með mikla reynslu af fjármögnun og þekkingu á fyrirtækjum í heilbrigðisgeiranum. Lánafyrirgreiðslan staðfestir traust þeirra á rekstri og framtíðaráætlunum Alvotech.
Samningurinn er um lánafyrirgreiðslu að fjárhæð allt að 965 milljónir Bandaríkjadala. Gert er ráð fyrir að útgreiðsla verði í júlí 2024. Fyrri hluti, lán að fjárhæð 900 milljónir Bandaríkjadala ber 6,5% álag á SOFR (millibankavexti í dollurum), en Alvotech hefur einnig rétt til að draga á 65 milljónir til viðbótar og ber sá hluti lánsins 10,5% álag á SOFR. Lánið er á fyrsta veðrétti, til fimm ára, með lokagjalddaga í júní 2029. Alvotech ætlar að nýta lánið til þess að endurfjármagna útistandandi skuldir, þar með talið þau lán sem eru með lokagjalddaga á næsta ári. Eftirstöðvunum verður varið til að styrkja lausafjárstöðu félagsins.