Skip Navigation

Stjórn Alvotech samþykkir áætlun um að undirbúa skráningu á Aðalmarkað Nasdaq á Íslandi

Business
12 August 2022
  • Eftir skráningu félagsins á hlutabréfamarkað í Bandaríkjunum og á Íslandi hyggst Alvotech undirbúa að færa skráningu á Íslandi yfir á Aðalmarkaðinn
  • Skráning á Aðalmarkaðnum eykur sýnileika auk þess að opna leið til þátttöku í innlendum og alþjóðlegum hlutabréfavísitölum.

Alvotech tilkynnti í dag að stjórn félagsins hefði samþykkt áætlun um að undirbúa skráningu á Aðalmarkað Nasdaq Iceland, en félagið er nú skráð á Nasdaq First North Growth markaðinn hér á landi. Taka bréfa í Alvotech til viðskipta á Aðalmarkaðnum er háð útkomu úr ítarlegu umsóknarferli. Með skráningu á Aðalmarkaðinn ættu hlutabréf í félaginu að ná til breiðari hóps. Þá getur skráð fyrirtæki á Aðalmarkaðnum átt möguleika á að vera valið til þátttöku í innlendum og erlendum hlutabréfavísitölum. Í september næstkomandi munu fyrirtæki skráð á Aðalmarkaðinn, sem uppfylla kröfur um veltu og fleiri þætti, eiga möguleika á að vera skráð í nokkrar nýmarkaðsvísitölur FTSE Russell. Val á íslenskum hlutabréfum til þátttöku í FTSE vísitölunum er  endurskoðað reglulega eða á sex mánaða fresti. 

Hlutabréf í Alvotech eru nú skráð á Nasdaq hlutabréfamarkaðnum í Bandaríkjunum og Nasdaq First North Growth markaðnum á Íslandi undir auðkenninu „ALVO“ og hófust viðskipti með bréfin í Bandaríkjunum 16. júní s.l. og á Íslandi 23. júní s.l.

Við erum mjög spennt fyrir því að hefja umsóknarferlið til að færa viðskipti með hlutabréf í Alvotech yfir á Aðalmarkaðinn á Íslandi, eftir að við náðum þeim áfanga að vera fyrsta íslenska fyrirtækið sem skráð er samtímis í Bandaríkjunum og á Íslandi.

Róbert Wessman

Stofnandi og stjórnarformaður Alvotech

Nasdaq First North Growth markaðurinn er markaðstorg með hlutabréf sem starfar eftir einfaldari reglum en Aðalmarkaður Nasdaq Iceland, auk þess sem tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) um gagnsæi í tengslum við útgefendur verðbréfa (2004/109/EC) gildir ekki um viðskipti með hlutabréf á slíku markaðstorgi. Móðurfélag Alvotech er skráð hlutafélag í Lúxemborg, og ef flutningur á Aðalmarkaðinn á sér stað myndi þarlent fjármálaeftirlit, Commission de Surveillance du Secteur Financier (CSSF), teljast eftirlitsaðili samkvæmt skilgreiningu gagnsæistilskipunarinnar.  

Alvotech þróar átta líftæknilyfjahliðstæður, sem geta nýst til meðferðar við fjölda sjúkdóma. Markaður fyrir viðmiðunarlyf þessara hliðstæða er áætlaður rúmlega 11.050 milljarðar króna (85 milljarðar Bandaríkjadala) á ári, samkvæmt greiningu EVALUATE Pharma.